Það sem allir eiga að vita – Gráir hestar eru alltaf undan...

Það sem allir eiga að vita – Gráir hestar eru alltaf undan gráu

Deila

Grá hross eiga alltaf a.m.k. eitt grátt foreldri. Grái liturinn sýnir sig alltaf og hann tekur yfir alla aðra liti. Grunnlitur grárra hesta, fæðingarliturinn, getur verið hvaða litur sem er. Hestar með gráan lit,  grána með aldrinum en það tekur misjafnlega langan tíma.

Þetta hefur verið vitað lengi. Oft gætir samt misskilnings varðandi gráa litinn og hvernig hann erfist, jafnvel meðal reyndra hestamanna.

Samkvæmt fræðunum er það líka þekkt að ef annað foreldrið er grátt þá eru 50% líkur á að grátt folald fæðist. Ef báðir foreldrar eru gráir eru 75% líkur á að afkvæmið verði grátt. Ef annar eða báðir foreldrar eru afhreinir gráir þá eru  100% líkur á að grátt afkvæmi fæðist.

Sárafáir stóðhesta hér á landi sem hafa verið arfhreinir gráir, a.m.k enginn sem hefur skilið eftir sig djúp spor í hrossaræktinni. Stóðhesturinn Klaki frá Gullberastöðum fæddur 1973 var þó að öllum líkindum arfhreinn grár. Undan Klaka eru skráð 17 afkvæmi í Worldfeng. Fáar kunnar kynbótahryssur hafa verið arfhreinar gráar. Eina kunna kynbótahryssa er hægt að nefna. Það er Helga Jóna frá Hvammi í Skagafirð. Hún var arfhrein grá og eignaðist 18 grá afkvæmi. Hrossin frá Vestri Leirárgörðum er flest út af henni, t.d. Narri  og hún er amma stóðhestanna Flygils og Fráns frá Vestri Leirárgörðum.

Gráa litinn er sjaldnast hægt að greina á folöldum. Grátt kemur oftast í ljós eftir að folaldið hefur fellt folaldshárin. Grái liturinn eða grá hár í feldnum eru oftast orðin sjáanleg á ársgömlum trippum.

Erfðavísirinn fyrir gráum lit er ríkjandi og liturinn sýnir sig alltaf  ef erfðarvísirinn er til staðar. Af þeirri ástæðu geta grá afkvæmi aðeins fæðst ef a.m.k. annað foreldrið er grátt. Það skiptir í raun ekki máli hvernig áar hesta eru á litinn í þessu samhengi. Ef hestar eru ekki gráir á litinn þá eru þeir ekki með erðavísi fyrir gráum lit.

Grá hestar geta fæðst með hvað lit sem er. Grái liturinn birtist smátt og smátt. Á endanum verða grá hross hvít. Mjög misjafn er hve langan tíma það tekur. Sum hross verða hvít snemma, 4 -9 vetra. Algengt er að grá hross séu orðin hvít um 12 vetra aldur en mörg dæmi eru um að þau verði  hvít mun seinna en það.

Ljósir litir eru fljótir að grána, t.d. leirljóst. Erlendis er talið að vindótti liturinn gráni mjög fljótt, jafnvel að þannig hross fæðist hvít eða verði hvít eins til tveggja vetra.

Dæmi eru um að hestar, sem verða gráir, fæðist kolsvartir. Það er hugsanlegt að gráir hestar, fæddir brúnir, fæðist dekkri en venjulegir brúnir eða svartir hestar.

Grunnreglur um erfðir lita eru einfaldari en margir ímynda sér. Það ætti að vera hestamönnum og hrossaræktendum metnaðarmál að kynna sér þessi fræði. Grundvallarþekking á litarefðum hrossa er stundum forsenda þess að skráning á litum hrossa sé nákvæm og rétt. Það er gott að hafa í huga að liturinn á folöldum er ekki alltaf lýsandi fyrir raunverulegan lit hrossa. Réttur litur kemur yfirleitt í ljós þegar trippið fellir folaldshárin.

Þess má geta að sömu reglur og sagt er frá hér að ofan, gilda um erfðir skjótta  litarins. Skjótt erfist með ríkjandi erfðavísi, sem sýnir sig alltaf og tekur yfir alla aðra liti. Skjótt hross geta aðeins komið undir ef a.m.k annað foreldrið er skjótt.

Þekkingu okkar á litum og litarerfðum hrossa getum við að miklu leiti  þakkað fræðimanninum Stefáni Aðalsteinssyni (1928-2009). Stefán var doktor búfjárfræðum. Hann rannsakaði m.a. erfðir á sauðalitum og hestalitum. Rannsóknir hans vöktu athygli víða um heim. Stefán gaf út bókina Íslenski hesturinn  Litarafbrigði árið 1991 ásamt Friðþjófi Þorkelssyni ljósmyndara. Í bókinni er útskýrt margt um liti hesta og hvernig þeir erfast. Stefán hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2003 fyrir framlag sitt til búvísinda og erfðafræði.

.

Eyrún Ýr Kjarval Blönduósi
Kjarval frá Blönduósi. Móðir Kjarvals er grá undan Gusti frá Hóli sem var grár. Gustur er undan Gáska frá Hofstöðum sem var grár eins og faðir hans, Hrímnir frá Vilmundarstöðum
1-IMG_8358
Hrímnir og Guðmundur Björvinsson. Hrímnir er undan grárri hryssu sem er undan gráum hesti Gusti frá Hóli.
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Kjarni frá Þjóðólfshaga er undan Kringlu frá Kringlumýri sem er grá. Kringla er undan Feyki frá Hafsteinsstöðum sem er grár. Feykir var undan grárri hryssu.
Gandálfur Selfossi
Gandálfur frá Selfossi, knapi Ísólfur Líndal. Gandálfur er undan gráum hesti, Gusti frá Hóli sem er faðir og forfaðir margra þekkra grárra hesta í dag.
frann1
Fránn frá Vestri Leirárgörðum undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Frægð frá Vestri Leirárgörðum grá, fædd moldótt. Móðri Frægðar var arfhrein grá og eignaðist á annan tug grárra afkvæma. Hún hét Helga Jóna frá Hvammi í Skagafirði.

 

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD